Lög Hliðskjálfar

1. grein
Félagið heitir Hliðskjálf, félag um opin og frjáls landupplýsingagögn.

2. grein
Heimili félagsins og varnarþing er lögheimili formanns félagsins.

3. grein
Tilgangur félagsins er að vera í forsvari fyrir málstað opinna og frjálsra landupplýsingagagna. Þá skal það stuðla að því að sem flest landupplýsingagögn verði í boði fyrir almenning undir opnu eða frjálsu dreifingarleyfi. (Lagabreyting þarfnast samþykkis næsta aðalfundar)

4. grein
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með almennum kynningum á málstaðnum ásamt samskiptum við hið opinbera og aðra aðila eftir því sem þörf er á sem og með varðveislu á gögnum eða tilvísunum á opin gagnasöfn. Þá getur félagið staðið fyrir eða aðstoðað við verkefni sem hafa það markmið að afla frumgagna, meðal annars með þátttöku almennings. Að auki reynir félagið að fá aðila sem þegar hafa slík gögn til þess að gefa þau út undir opnu eða frjálsu dreifingarleyfi. (Lagabreyting þarfnast samþykkis næsta aðalfundar)

5. grein
Rétt á að ganga í félagið eiga allir, bæði einstaklingar og lögaðilar, sem eru hlynntir markmiðum þess. Skráning í félagið skal ætíð vera í boði.

6. grein
Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Á aðalfundi skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn hafa atkvæðisrétt á aðalfundi en allir skulu hafa málfrelsi og tillögurétt.

7. grein
Aðalfund skal halda eigi síðar en 1. júní ár hvert og skal boða til hans með að minnst tveggja vikna fyrirvara með sannanlegum hætti, sem meðal annars telst sem tilkynning send á netföng félagsmanna. Aðalfundur er löglegur, sé rétt til hans boðað. Ef aðalfundur telst ekki löglega boðaður skal boða til nýs aðalfundar að viku liðinni.

Heimilt er að leyfa félagsmönnum að taka þátt í aðalfundarstörfum og greiða atkvæði með rafrænum hætti. Þátttaka með rafrænum hætti telst mæting. Stjórn setur nánari reglur um framkvæmd rafrænna kosninga. Einfaldur meirihluti mættra félagsmanna ræður úrslitum mála.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar lögð fram
3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
4. Lagabreytingar
5. Ákvörðun félagsgjalds
6. Kosning stjórnar
7. Önnur mál

8. grein
Stjórn félagsins skal skipuð 3 félagsmönnum, formanni og 2 meðstjórnendum, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér verkum. Stjórn félagsins fer með málefni félagsins milli aðalfunda. Formaður boðar til stjórnarfunda. Firmaritun og prókúra er í höndum meirihluta stjórnar.

9. grein
Ákvörðun um félagsgjald skal tekin á aðalfundi. Greiðsla þeirra skal vera valkvæð. Félaginu er heimilt að taka við frjálsum framlögum ásamt því að standa í sölu á vöru eða þjónustu í þeim tilgangi að fjármagna starfsemi þess.

10. grein
Rekstrarafgangi af starfsemi félagsins skal varið í samræmi við tilgang félagsins. Sé hann ekki allur nýttur á einu starfstímabili skal afgangurinn flytjast yfir á það næsta.

11. grein
Lagabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Tillögur um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn félagsins 10 dögum fyrir aðalfund. Þær skulu sendar félagsmönnum í tölvupósti með minnst viku fyrirvara fyrir aðalfund. Þær skulu eingöngu teljast samþykktar ef þær teljast löglega kynntar og hljóta 2/3 hluta atkvæða þeirra félagsmanna sem mættir eru á löglegan aðalfund.

12. grein
Ákvörðun um slit félagsins verður eingöngu tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta atkvæða. Skulu eignir þess að frádregnum skuldum vera færðar til Félags um stafrænt frelsi á Íslandi til varðveislu þar til annað félag er stofnað sem telst vera sannarlegur arftaki félagsins eða notkunar samkvæmt tilgangi þeim sem kveðið er á um í þessum lögum.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins.

Skáletraður texti eru fyrirliggjandi lagabreytingar frá stjórn vegna krafna Ríkisskattstjóra og bíða samþykkis aðalfundar.