OpenStreetMap

OpenStreetMap er stærsti frjálsi og opni landupplýsingagrunnur sem til er. Hver sem er getur lagt sitt af mörkum við að laga og stækka það gagnamengi sem er til þar.

Gögnin sem eru til á OSM er hægt að ná í á ýmsu formi, það eru til smáforrit fyrir Android og iOS-snjalltæki þar sem hægt er að niðurhala heiminum eða einstaka svæðum hans til að spara farsímanotkun á ferðum þar sem kortið er notað. Fjölmargir aðilar byggja eigin vefi ofan á OSM-gögn, til dæmis Foursquare og Flickr.

Fleiri dæmi um kort sem byggja á OSM-gögnum eru OpenCycleMap (kort fyrir hjólaleiðir sem blandar hæðarlínum við OSM-gögnin), OpenFireMap (brunahanar og slökkvistöðvar gerð greinilegri á kortum) og Wheelmap (aðgengi hjólastóla).